Færsluflokkur: Bloggar

Ég er ekki ein

Ég var spurð að því hvernig dagurinn minn hefði verið.
Ég svaraði:

"Ég vaknaði í morgun með hnút í maganum. Þorði ekki,
gat ekki, fékk mig ekki til að fara fram úr rúminu. Eftir 2 klst fór ég
framúr, inná baðherbergi, leit í spegilinn og táraðist yfir því hversu
illa ég leit út. Ég fór í sturtu, en fannst ég aldrei verða hrein.
Ég fékk mér að borða, en fannst ég aldrei verða södd.
Ég hlustaði á tónlist, og reyndi að dansa í huganum.
Ég ákvað að fara út en hélt höfðinu það langt niðri að enginn gæti séð hversu
óstjórnlega ljót ég væri í raun og veru.
Ég fór í búðina og langaði mikið í skúkkulaði. Ég keypti það ekki sökum
þess að ég var viss um að fólk myndi halda að ég væri feit og gráðug.
Ég fór svo heim og eldaði matinn. Ég horfði á sjónvarpið og hló.
Mér leið þá vel.

Ég hlustaði aftur á tónlist og dansaði, í þetta skipti, ekki í huganum.
Ég burstaði tennurnar, háttaði mig og fór upp í rúm, með bros á vör.

Eftir nokkrar mínútur táraðist ég og fékk á endanum óstöðvandi grátkast.
Mér fannst ég einskis virði. Mér fannst ég ljót. Mér fannst ég leiðinleg.
Ég grét og grét og grét.
Svo kom ég hingað og þú spurðir hvernig dagurinn minn hefði verið.....
Hvernig var dagurinn þinn"?

Hann svaraði mér:

"Alveg eins, fyrir utan það að ég keypti súkkulaðið".

Þarna fattaði ég, að ég væri ekki ein.


...og þá var aldeilis kátt í Höllinni!

Við í Bermuda spiluðum á Söngkeppni Framhaldsskólanna á Akureyri 18.apríl síðastliðinn. Ekki nóg með að strákarnir hafi spilað undir í keppninni, heldur tókum við lagið í beinni og héldum síðan uppi stuði og stemmningu á balli eftir keppnina.

 Hérna erum við að flytja lagið Dreaming Of Bermuda eftir Örlyg Smára. Textinn er eftir moi

 

 

.

And as the sun shines in my mind I am dreaming of Bermuda!

 

-Írisin

 


Ég elska mig! Elskar þú þig?

Ég fæ símtal frá vinkonu minni og ég heyri hvernig röddin á henni titrar þegar hún heilsar. Eins og alltaf þegar okkur líður illa og þurfum hjálp þá heilsar hún mér eins og hún sé að trufla.
,,Hæ, þetta er ég. Er ég að trufla?"
,,Nei að sjálfsögðu ekki", segi ég. ,,Er ekki allt í góðu?"
Það kemur löng þögn og ég heyri hana sjúga upp í nefið. ,,Nei, eiginlega ekki sko... Við vorum að hætta saman. Hann dömpaði mér Íris! HANN DÖMPAÐI MÉR! Hvað á ég að gera án hans? Hvernig á ég að komast í gegnum þetta? Hvað gerði ég vitlaust? Af hverju? Ég skil þetta ekki..."

Að sjálfsögðu hittir maður vinkonur sínar þegar þeim líður illa og gerir allt sem maður getur til að láta þeim líða vel.
Segir alla réttu hlutina, allt sem maður veit að er satt.
,,Hey, þú ert frábær! Þú gerðir ekkert rangt. Ef þetta er að gerast þá var þetta bara ekki meant to be skiluru? Það eru fleiri fiskar í sjónum!"
Maður fær þau svör sem maður býst við.
,,En ég vil engan annan fisk! Og hvernig get ég verið svona frábær þegar fiskurinn sem ég náði að veiða syndir bara í burtu frá mér? Ég hlýt að hafa gert eitthvað rangt!"

---

Ég hringi í vinkonu mína og ég finn hvernig röddin titrar þegar ég heilsa.
,,Hæ, þetta er ég. Er ég að trufla?"
,,Nei, að sjálfsögðu ekki Íris mín," svarar hún ,,er ekki allt í góðu"?
Það kemur löng þögn og ég sýg uppí nefið um leið og ég finn hvernig tárin byrja að streyma.
,,Nei eiginlega ekki sko... Við vorum að hætta saman. Hann dömpaði mér! Ég veit ekkert hvernig ég á að vera! Allt gekk svo vel! Af hverju? Hvað gerði ég vitlaust"?

---

Af hverju hlustar maður aldrei á sjálfan sig þegar maður gengur í gegnum sambandsslit eða erfiða tíma.
Er það svona er erfitt eða er möguleikinn á að geta valið hverju maður vill trúa að þvælast fyrir? Eða langar okkur bara stundum að líða illa?

Ég tel það ekkert nema hollt og gott fyrir sálina að líða illa endrum og eins. Að sjálfsögðu er það erfitt og getur litið út fyrir að vera heimsendir en allt, gott eða slæmt, gerir okkur að þeim sem við erum.
Ok, ok, klisja og við höfum heyrt þetta margoft. Samt, SAMT, gleymum við þessu alltof oft!
Ég reyni að vera eins stolt af sjálfri mér og ég get og þrátt fyrir þunglyndi og geðraskanir þá reyni ég að láta aðra ekki stjórna minni eigin hamingju.
Ég veit hver ég er. Ég veit hvað ég vil. Og ég veit hvað ég vil ekki.

Alveg sama hversu erfitt lífið virðist vera, við verðum að muna að lífið væri ekki slæmt nema það væri fyrir alla góðu tímana.

Hlustum á okkar eigin heilræði og hlustum á okkar eigin rödd.
Við ráðum okkar eigin hamingju.

Ég er eina manneskjan sem ég á eftir að lifa með til æviloka og því get ég allt eins elskað mig og dáð.

 

 

 

 

-Íris Hólm 


Þá kom að því...

Góða kveldið.

 

Ég stofnaði þessa bloggsíðu fyrir þó nokkru síðan og verður að viðurkennast að ég hef ekki verið ýkja dugleg við að færa inn færslur og misgóðar sögur úr mínu daglega lífi.

Ég hef nú samt hér með ákveðið að deila með ykkur nokkrum af mínum eldri ljóðum. Ég hef í gegnum árin samið 1-2 ljóð á dag og safnaði ég þeim saman fyrir ekki svo löngu síðan og finnst mér synd að engin fái að lesa þau. Hér koma tvö þeirra.

 

Fyrirgefið mér

Hef engan grunn og enga stoð
og enginn í heiminum asnast til að skilja.
Það er í raun ekkert skrítið,
þar sem mín eigin tár hylja
yfir þann skilning sem í raun býr
í brjósti mér.
Fyrirgefið, þau sem ég dreg með.
Fyrirgefið mitt illa geð.
Þetta er ömurlegt af mér,
ég veit það vel.
Þessi raunveruleiki fer með mig
eina stundina.
Aðra stundina er allt í “kei-inu”.
Ég reyni að átta mig sjálf á öllu sem er að.
Treystið mér,
þetta eruð ekki þið.
Þetta er einungis ég
og minn hugur.

(Íris Hólm)

 

Þáttökugjald lífsins

Hvers þarf maður að gjalda
ef maður fékk engu um það ráðið?
Ég skynja, ég er á lífi
og ég heyri hjartað í mér slá.
Tilfinningarnar leka niður kinnarnar
og ég er uppfull af þrá.
Dæmið það flækist og ég fæ enga lausn.
Alveg sama hvað ég geri,
ég hverf smátt og smátt,
Tekurðu eftir því, þú ert allt sem ég vil.
Þú heltekur mig alla en ég samt þig ekki skil.
Ef ég fékk engu um það ráðið,
af hverju er gjaldið þá svona hátt?

(Íris Hólm)

 


Er það?

Er það bara ég eða er þetta bara vitleysa?

 

Af hverju finnst mér Sarah Jessica Parker ósköp kynþokkafull stelpa?

Hún á auðvitað sýna slæmu daga, eins og við öll.

Er það kynþokki, að vera alltaf æðislega sætur og helst með sílikonbrjóst, að detta í sundur og ganga á pinnahælum allan liðlangan daginn?

Madonna er líka þessum lista og Sarah  Oh.

Ég veit ekki betur en að Sarah Oh hafi verið valin ein af fallegustu konum heims?

Er það ekki það sama, að vera fallegur og kynþokkafullur?

 

Æji, ég hreinlega veit ekki hvað ég veit. 


mbl.is Sarah Jessica Parker laus við kynþokka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband